144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

starfsáætlun og væntanleg stjórnarfrumvörp.

[14:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að við erum að ræða um fundarstjórn forseta vegna þess að við viljum hafa dagskrána með öðrum hætti en hér birtist. Ég fagna þó því að í umræðum um fundarstjórn forseta hefur hv. formaður atvinnuveganefndar sýnt það heilbrigðiseinkenni að sækja sér rök til fyrri ríkisstjórnar og áttar sig á því að mörgu af því sem þar var gert hefði betur verið fylgt eftir. Ég frábið mér þó þá röksemdafærslu sem hér var notuð áðan að sú framkvæmdaáætlun snerist eingöngu um stórvirkjanir. Verkefnin sem hér voru talin upp áðan snerust um nýja Landspítalann, þau snerust um tvöföldun á Hvalfjarðargöngum, 2+2 á Vesturlandsvegi. Sjálfur hef ég sagt að sem betur fer fórum við ekki í þetta allt vegna þess að okkur vantar pening í allt aðra hluti.

Ekki er verið að vinna núna að verkefnum og flýta fyrir með því að virkja eingöngu. Það sem ég skora á hæstv. forseta að gera er að láta kanna hvað það tekur langan tíma að fá afgreiðslu verkefnisstjórnarinnar sem ekki fékk einu sinni fjármagn frá núverandi meiri hluta til vinnu verkefnisstjórnar. Það er það sem liggur á. Afgreiðum Hvammsvirkjun og förum svo í að hraða vinnunni hjá verkefnisstjórninni þannig að þetta fari (Forseti hringir.) eftir sínu lögbundna ferli.