144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

rammaáætlun og gerð kjarasamninga.

[14:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra getur ekki valið sér einhvern tímapunkt til að vitna í Alþýðusamband Íslands, hann verður að vitna í þá umsögn sem liggur fyrir frá Alþýðusambandinu um þetta þingmál þar sem Alþýðusambandið leggst gegn því að gengið sé faglegum vinnubrögðum og mál hrifsað úr höndum verkefnisstjórnarinnar. Svo verður hæstv. forsætisráðherra að fara að komast inn í nútímann hvað atvinnumál varðar. Það er ekki þannig að stórvirkjanir séu eina leiðin til verðmætaaukningar á íslensku samfélagi á 21. öld, þvert á móti. Það eru alls konar aðrir kostir sem hægt er að grípa til. Það verður líka að muna að í þessu máli er gengið beint gegn ráðleggingum ferðaþjónustunnar, hún skapar íslensku þjóðarbúi þrefalt meiri gjaldeyristekjur en stóriðjan í dag. Hæstv. forsætisráðherra er fastur í hugarfari gengins tíma og verður að skilja að ef við ætlum að halda í unga fólkið á Íslandi, ef við viljum að fólkið sem flutt hefur af landi brott komi aftur heim, (Forseti hringir.) þurfum við að búa til verðmætari störf og það verður að byggjast á framsækinni atvinnustefnu, (Forseti hringir.) ekki gamaldags stóriðjustefnu.