144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

fjölgun virkjunarkosta og kjarasamningar.

[14:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég heyri ekki betur en hæstv. forsætisráðherra sé einmitt að setja þessa tillögu, sem hér teppir öll þingstörf því hún stangast á við lögbundið ferli rammaáætlunar, í samhengi við það að auka þurfi verðmætasköpun, það sé best gert með fleiri kostum í rammaáætlun, óháð því hvort við séum að ganga fram hjá lögbundnu ferli. Til þess að hægt sé að ná raunverulegum kjarabótum þurfum við þessa auknu verðmætasköpun. Þannig að ég heyri ekki betur en hæstv. ráðherra sé að setja þetta í þetta samhengi.

Ég spyr þá: Hvað finnst hæstv. ráðherra um umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar sem, eins og ég nefndi áðan, eru samtök þeirrar atvinnugreinar sem stendur hvað best í landinu, er mest vaxandi, með mestar gjaldeyristekjur? Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um að meiri hluti atvinnuveganefndar Alþingis ætli að ganga gegn þessum atvinnuvegi, þegar samtökin leggja fram í umsögn sinni að þau telji þetta mjög (Forseti hringir.) ámælisvert? Þetta sé aðför sem rýri trúverðugleika atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) og að horfa verði á náttúruauðlindir á mun víðari grunni en gert hefur verið hingað til (Forseti hringir.) og ná einhverju langtímaskipulagi (Forseti hringir.) um nýtingu og verndun í íslenskri náttúru.