144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

stjórnarfrumvörp væntanleg fyrir þinglok.

[14:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður. Í marga mánuði höfum við í stjórnarandstöðunni rukkað hæstv. forsætisráðherra og aðra ráðherra í ríkisstjórninni um hvað þeir telji að þurfi að gera til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Aldrei hefur neitt svar komið, jafnvel verið sagt að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar eða alþingismanna að grípa inn í það. Nú er svarið komið, það er að virkja. Það finnst mér ótrúlega ósjálfbær leið til að grípa inn í kjarasamninga. Á að virkja í hvert einasta skipti sem blossa upp kjaradeilur á Íslandi? [Hlátur í þingsal.] Og verður það alltaf hægt? Þetta er nú aldeilis framtíðarsýn, mikil andagift hér á ferðinni. Ég hafna auðvitað þessari framtíðarsýn.

Ég mun fjalla um þetta í ræðu minni hér á eftir, farið ekki langt, um þann lið sem hér er á dagskrá um rammaáætlun. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að hlýða á þá ræðu, en ég ætla að spyrja hann núna að öðru. Þingið er í upplausn. Við vitum lítið hvaða mál bíða hér afgreiðslu í raun og veru og það er ýmislegt sagt í fjölmiðlum um að mál séu á leiðinni inn í þingið. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra afskaplega einfaldra spurninga. Mér finnst sanngjarnt núna undir þinglok að hann svari skýrt og mér mundu finnast það tíðindi ef hann svaraði þessu ekki skýrt: Hvaða þingmál eru á leiðinni frá ríkisstjórninni núna undir þinglok? Hvaða þingmál eru á leiðinni? Hvað ætlar ríkisstjórnin að leggja fram? Skýr svör óskast.