144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[15:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er truflandi að heyra hér að hæstv. forsætisráðherra virðist álíta húsnæðisstefnu Framsóknarflokksins skiptimynt í kjarasamningum, en það er ágætt að það liggi fyrir. Ég hef ekki frekar en aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar séð frumvörp húsnæðismálaráðherra. Að baki þeim liggur stefnumörkun með aðkomu ýmissa samtaka, allra stjórnmálaflokka, aðila vinnumarkaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það sem meira er, svipuð vinna með aðkomu sömu aðila fór fram á síðasta kjörtímabili og stefnan er nánast sú sama. Sem sagt, það er mikil samstaða um þessa húsnæðisstefnu.

Hæstv. fjármálaráðherra heldur því nú fram að frumvarp húsnæðismálaráðherra falli í grýttan jarðveg hjá aðilum vinnumarkaðarins. Því hafi ráðherrann þurft að breyta frumvörpunum. Ef þetta er rétt hlýtur sú spurning að vakna hvort frumvörpin séu í samræmi við stefnuna.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort þetta sé rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hafa frumvörpin fallið í grýttan jarðveg? Við hvaða aðila var þá rætt? Hefur verið rætt við Starfsgreinasambandið, BSRB eða BHM eða hverjir eru það sem eiga að vera svona ósáttir við frumvörpin? Og hvað er það í frumvörpunum sem þeir eru ósáttir við?