144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[15:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir fyrirspurn hennar.

Eins og hv. þingmaður fór í gegnum og þekkir ágætlega sem fulltrúi í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála þá var unnið að ákveðnum tillögum sem sneru að húsnæðiskerfinu í heild sinni. Þær tillögur sem komu hins vegar um félagslega húsnæðiskerfið voru, eins og þingmaðurinn benti hér á, byggðar að hluta til á þeim tillögum sem höfðu komið fram um að það þyrfti að auka húsnæðisstuðninginn við efnaminni fjölskyldur og ekki síst þær sem væru á leigumarkaðnum. Síðan komu ákveðnar útfærslur á því hvernig ætti að breyta húsnæðislánakerfinu, sem var nýtt, og síðan komu líka breytingar á því hvernig stuðningi hins opinbera ætti að vera háttað við uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Það er megininntakið í því sem við höfum verið að ræða.

Ég lagði öll þau frumvörp sem við höfum unnið varðandi húsnæðismálin fyrir samráðshópinn og sagði að ég væri tilbúin að gera nauðsynlegar breytingar á þeim til þess að það mætti nást sátt og það gæti verið hluti af framlagi okkar inn í kjarasamninga. Tvö af þessum frumvörpum eru þegar komin í þinglega meðferð og eru í meðferð hjá velferðarnefnd. Það þriðja erum við núna búin að fá formlegt kostnaðarmat um í fjármálaráðuneytinu og ég tel rétt að samráðshópur fari yfir niðurstöðu kostnaðarmatsins og átti sig á þeim ábendingum sem koma þar fram. Síðan er hið fjórða, frumvarpið um stofnframlög, það kann að taka enn frekari breytingum í tengslum við kjarasamninga.

Ég vil líka nefna að önnur frumvörp kunna að verða lögð fram í framhaldi af þessu samráði. Markmið okkar er uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis þar sem við ætlum að tryggja að öll heimili landsins (Forseti hringir.) njóti góðs af auknum kaupmætti og hagvexti og þetta er það sem við höfum verið að vinna að. Ég vona að þetta svari að einhverju leyti (Forseti hringir.) spurningu þingmannsins.