144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég sagði í síðustu viku undir þessum lið, fundarstjórn forseta, að ég hefði trú á því að þetta mál væri eins konar uppfyllingarefni. Og í þessari umræðu núna, eftir orð hæstv. forsætisráðherra, held ég að það sé því miður raunin að þetta mál er uppfyllingarefni, eins dapurlegt og það nú er, vegna þess að menn hafa ekki nein mál tilbúin til að koma með inn í þingið.

Hæstv. forsætisráðherra nefnir mál eins og húsnæðismálin og losun hafta sem hvort tveggja eru brýn mál sem eru langt frá því að vera tilbúin. Og hvaða losaragangur og hvaða bragur, svo ég noti nú það orð sem svífur stundum yfir vötnum hér, er á þingstörfum við þessar aðstæður? Þetta er ekki hægt. Hæstv. forsætisráðherra verður að fara að ræða við yfirstjórn þingsins og koma með einhverja tillögu að málum á dagskrá.