144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[15:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hér er að teiknast upp alltaf með skýrari hætti að þetta mál er sett á dagskrá til að fela fullkomið getuleysi ríkisstjórnarinnar í þeim verkefnum og viðfangsefnum sem við henni blasa. Menn þurfi ekkert annað en að horfa á samskipti milli ráðherra innan ríkisstjórnarinnar til að átta sig á því að það er engin samræming, engin verkstjórn í gangi, það er ekkert samtal um hvað skuli gert, hvernig þessum málum skuli háttað o.s.frv.

Hæstv. forsætisráðherra þarf að hugsa út fyrir rammann í margvíslegum skilningi þeirra orða. Það er ekki nein lausn í því fólgin að hleypa öllu í uppnám í þinginu með þessum tillögum á sama tíma og minni hlutinn í þinginu hefur lýst sig reiðubúinn til að eiga samtal við meiri hlutann um það hvernig megi koma til dæmis með einhvern pakka (Forseti hringir.) sem væri líklegur til að liðka fyrir stöðunni á vinnumarkaði.