144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og þá tillögu hæstv. umhverfisráðherra að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk eftir tillögu verkefnisstjórnar. Það er faglegt mat verkefnisstjórnar að leggja til þá flokkun að Hvammsvirkjun fari í nýtingarflokk en að beðið sé með að flokka aðra virkjunarkosti úr biðflokki þar til nánari skoðun hefur farið fram.

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að hæstv. umhverfisráðherra hlusti á ræðu mína og hún er komin í salinn. Ég vil gjarnan að hæstv. forsætisráðherra hlusti líka á ræðu mína en hann er ekki hér í salnum. Ég vona að hann sé að hlusta, að minnsta kosti einhver af aðstoðarmönnum hans. Í þingsal er enginn flutningsmanna, enginn þeirra hv. þingmanna sem flytja breytingartillöguna. Það sem er umdeilt við þingsályktunartillöguna er breytingartillagan sem gengur út á að stjórnmálamenn taka fram fyrir hendurnar á verkefnisstjórn við faglegt mat og leggja til flokkun á virkjunarkostum.

Þeir hv. þingmenn sem hafa tjáð sig, þeir eru nokkrir, hafa í málflutningi sínum sagt að það sé í lagi að gera þetta vegna þess að síðasta ríkisstjórn hafi farið gegn anda laga um rammaáætlun. Því sé í lagi að þeir geri það líka og hæstv. forsætisráðherra sagði fyrr á þessum fundi að verið væri að leiðrétta það sem gert var á síðasta kjörtímabili. Því mótmæli ég, herra forseti, og af því tilefni vil ég fara yfir og rekja það ferli sem átti sér stað við gerð þingsályktunartillögunnar sem samþykkt var í janúar 2013.

Markmið verndar- og orkunýtingaráætlunar er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati, þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Í verndar- og orkunýtingaráætlun er, í samræmi við markmið laga nr. 48/2011, lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar og þar með talið verndunar. Á grundvelli þessa er í rammaáætlun mótuð stefna um hvort landsvæði þar sem virkjunarkosti er að finna megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða rannsaka frekar. Virkjunarkostir eru samkvæmt því flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk og biðflokk.

Upphaflega voru 84 virkjunarkostir til skoðunar innan verkefnisstjórnar um rammaáætlun, en af þeim koma 17 virkjunarkostir ekki til flokkunar þar sem þeir falla ekki undir gildissvið laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Samtals voru því í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili 67 virkjunarkostir flokkaðir í samræmi við ákvæði laga nr. 48/2011. Í samræmi við ákvæði þeirra laga voru þann 19. ágúst 2011 drög að þingsályktunartillögunni kynnt og send í opið tólf vikna umsagnar- og samráðsferli. Jafnframt fór í umsagnarferli umhverfismat á þingsályktunartillögunni sem unnið hafði verið í samræmi við ákvæði laga nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana.

Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram komu í umsagnarferlinu voru gerðar breytingar á þeim drögum í þingsályktunartillögu sem send var til umsagnar þann 19. ágúst 2011. Í fyrsta lagi voru tveir virkjunarkostir, Eyjadalsárvirkjun og Hveravellir, teknir út úr áætluninni þar sem í ljós kom að þeir féllu utan gildissviðs laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun. Í öðru lagi voru sex virkjunarkostir á tveimur svæðum, Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun I og Hágönguvirkjun II, ekki flokkaðir í nýtingarflokk eins og drögin gerðu ráð fyrir og eru því í biðflokki með vísan til ákveðinna varúðarsjónarmiða og nýrra upplýsinga.

Að auki eru í þingsályktunartillögunni áréttuð nokkur atriði sem snúa að brennisteinsmengun og niðurdælingu, upplýsingum vegna Hagavatnsvirkjunar auk þess sem nánari landfræðileg afmörkun er skilgreind fyrir virkjunarkostinn Sveifluháls.

Í einu og öllu var fylgt ákvæðum laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, en þau lög voru samþykkt samhljóða á Alþingi. Um lögbundna ferlið var því ekki ágreiningur.

Þann 5. júlí 2011 skilaði verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar lokaskýrslu sinni til ráðherra. Skýrslan ber heitið: Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar. Mikilvægt er að hafa í huga að í skýrslunni er ekki að finna flokkun þeirra virkjunarkosta sem verkefnisstjórnin hafði til skoðunar, þ.e. virkjunarkostirnir voru ekki flokkaðir í orkunýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk, heldur röðun á virkjunarkostunum, þ.e. annars vegar röðun af sjónarhóli nýtingar og hins vegar röðun af sjónarhóli verndar. Niðurstöður verkefnisstjórnar frá 5. júlí 2011 eru því ekki í formi þingsályktunartillögu um flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk. Skýrslan sem slík er því ekki þess eðlis að hægt hafi verið að leggja hana fram á Alþingi sem þingsályktunartillögu um flokkun virkjunarkosta.

Á grundvelli upplýsinga og tillagna í skýrslu verkefnisstjórnar var því í framhaldi af 5. júlí 2011 farið í þá vegferð, með formanni verkefnisstjórnar, formönnum þeirra fjögurra faghópa sem stóðu að skýrslunni og fulltrúa iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins, að koma tillögu verkefnisstjórnar í þingtækan búning í formi þingsályktunartillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem Alþingi ályktar um flokkun virkjunarkostanna í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Þeirri vinnu lauk í ágúst og þann 19. ágúst voru drög að þingsályktunartillögunni kynnt og send í hið tólf vikna lögbundna umsagnarferli eins og áður sagði.

Að loknu umsagnarferlinu var ítarlega farið í gegnum þær 225 umsagnir sem bárust og lagt mat á hvort þar væri að finna einhverjar nýjar upplýsingar sem taka bæri tillit til, lögum samkvæmt, við endanlegan frágang þingsályktunartillögunnar. Niðurstaðan var að svo væri og því voru gerðar nauðsynlegar breytingar á þeim drögum að þingsályktunartillögu sem lágu fyrir og skjalið síðan gert klárt fyrir framlagningu á Alþingi.

Allt ferlið var í samræmi við ákvæði laga nr. 48/2011 og þá aðferðafræði sem þar var lagt upp með og farið var rækilega í gegnum á sínum tíma við yfirferð iðnaðarnefndar og umhverfisnefndar á því frumvarpi sem varð síðan að lögum. Enn fremur má nefna að verklagið sem viðhaft var er í fullu samræmi við ákvæði Árósasamningsins sem innleiddur var í íslenskan landsrétt í lok síðasta árs og kveður meðal annars á um aukna þátttöku almennings í ákvörðunartöku í umhverfismálum.

Í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var í janúar 2013, eftir samtals 141 þingræðu og 858 athugasemdir, eða alls 1 þús. ræður í 45 klst., voru sex virkjunarkostir færðir úr orkunýtingarflokki í biðflokk frá því sem var í þeim drögum að þingsályktunartillögu sem send voru til umsagnar.

Varðandi tilfærslu þessara virkjunarkosta vil ég benda á að lög nr. 48/2011 kveða skýrt á um það hvaða rök réttlæta það að flokka virkjunarkosti í biðflokk. Það er alls ekki svo að biðflokkur sé geymsla fyrir umdeilda virkjunarkosti sem taka eigi afstöðu til síðar. Í biðflokk má, samkvæmt 5. gr. laganna, eingöngu setja virkjunarkosti þar sem talið er að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi hvort þeir eigi að falla í orkunýtingar- eða verndarflokk. Ef virkjunarkostur er fullrannsakaður og fyrirliggjandi gögn metin fullnægjandi ber því að flokka hann í orkunýtingarflokk eða verndarflokk.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum, nr. 48/2011, er undirstrikað að í biðflokk falli þeir virkjunarkostir sem að mati Alþingis er ekki unnt að flokka í annan hvorn framangreindra flokka þar sem fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefi ekki nægilega afgerandi til kynna í hvorn flokkinn virkjunarkostirnir eigi að falla. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram hér. Þeir sem eru nú að velta fyrir sér hvort þeir eigi að styðja breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar ættu að hafa þetta í huga og lesa greinargerðina vandlega með þeim lögum sem sú ákvörðun byggir á.

Þar sem í umsagnarferlinu komu sannarlega fram nýjar upplýsingar, þ.e. í umsagnarferlinu sem sett var í gang haustið 2011, varðandi umrædda sex virkjunarkosti var litið svo á að með tilkomu þeirra nýju gagna hefði sú staða komið upp að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar væru ekki nægilega afgerandi til kynna í hvorn flokkinn virkjunarkostirnir ættu að falla. Út frá 5. gr. laganna og þeim varúðarsjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði var því þessum sex virkjunarkostum raðað í biðflokk.

Varðandi hinar nýju upplýsingar sem bárust í umsagnarferlinu um þessa sex virkjunarkosti þá lúta þær annars vegar að mögulegum áhrifum framkvæmda vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár á laxfiska í ánni. Eru þar áhrif seiðaveitna meðal annars sérstaklega tilgreind og að fyrirliggjandi gögn sem verkefnisstjórnin hafði til hliðsjónar séu ekki fullnægjandi. Hins vegar er um að ræða að við vinnu verkefnisstjórnar hafi áhrif virkjunarkostanna Skrokkölduvirkjunar og Hágönguvirkjunar I og II á áhrifasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs ekki verið metin. Þar er um alþjóðleg viðmið að ræða sem ætlað er að tryggja að verndargildi hins friðlýsta svæðis skerðist ekki vegna athafna á aðliggjandi svæðum. Það var ekki unnt að horfa fram hjá þeim nýju upplýsingum sem bárust í umsagnarferlinu og voru því viðkomandi virkjunarkostir ekki flokkaðir í nýtingarflokk í endanlegri útgáfu þingsályktunartillögunnar.

Í athugasemdum með þingsályktunartillögu sem er í gildi er áréttað að ný verkefnisstjórn muni vinna áfram með þá virkjunarkosti sem eru í biðflokki og meta hvort ástæða sé til að leggja til við ráðherra rökstudda tillögu um breytta flokkun í samræmi við lögin. Þeim sértæku rannsóknum sem lagt er til að verði gerðar í Þjórsá verði hrint í framkvæmd af nýrri verkefnisstjórn og ný tillaga byggð á niðurstöðum þeirra. Ný tillaga mun einnig taka tillit til áhrifa virkjunarkostanna á áhrifasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, nýrra upplýsinga um Hagavatnsvirkjun og eftir atvikum annarra atriða sem varða virkjunarkosti í biðflokki.

Þeir 67 virkjunarkostir sem þingsályktunartillagan sem samþykkt var í janúar 2013 nær til skiptast þannig á milli orkunýtingarflokks, biðflokks og verndarflokks að 16 virkjunarkostir eru í orkunýtingarflokki, 31 í biðflokki og 20 í verndarflokki. Áætluð orkuvinnslugeta í orkunýtingarflokki eru 8,5 teravattstundir, í biðflokki 12,5 og í verndarflokki 11,3. Til hliðsjónar við þessar tölur er núverandi orkuvinnsla á Íslandi um 17 teravattstundir. Og ég minni á að markmið rammaáætlunar er að stuðla að meiri sátt og vernd, sátt um vernd og orkunýtingu landsvæða, að vernda af skynsemi og nýta af skynsemi. Miklu hefur verið til kostað við að vinna að þessu máli og undir liggur vinna sérfræðinga, leikmanna og stjórnmálamanna sem staðið hefur yfir í tvo áratugi frá 1995. Segja má reyndar að ferðin hafi farið af stað 1993 og kannski getum við leitað enn aftar, en formlega hefur ferlið staðið í 20 ár.

Það er fullkomlega óábyrgt, forseti, og vanhugsað af meiri hluta atvinnuveganefndar og núverandi stjórnarmeirihluta að rjúfa ferlið og hunsa undirstöður þess. Það kemur nefnilega dagur eftir þennan dag og það þarf að vanda það sem lengi á að standa. Hér erum við, virðulegur forseti, að ræða breytingartillögu frá sex hv. þingmönnum í atvinnuveganefnd, sem gengur út á að fara fram hjá niðurstöðum verkefnisstjórnar. Samkvæmt lögbundnu ferli leggur verkefnisstjórnin til að ein virkjun verði flokkuð í nýtingarflokk af þeim sem hún tók sérstaklega til athugunar og henni var falið að taka sérstaklega til athugunar með þeim skilaboðum að það þurfi lengri tíma til að meta hina kostina. Af hverju bíðum við þá ekki eftir niðurstöðu verkefnisstjórnar? Hér á nefnilega ekkert bráðabirgðaákvæði við eins og þegar drög að þingsályktunartillögu voru lögð fram í umsagnarferli á sínum tíma. Það átti aðeins við þegar þetta var gert í fyrsta sinn, en núna er það 3. gr. og 10. gr. laga nr. 48/2011 sem taka yfir ferlið og það er verið að brjóta með breytingartillögunni. Það er afar mikilvægt að hún verði dregin til baka og hér fáum við þingmenn að greiða atkvæði um tillögu hæstv. umhverfisráðherra, sem fer vel eftir ferlinu og allir geta verið sáttir við. Menn geta auðvitað haft alls konar skoðanir á því hvort það eigi að virkja eða vernda, en hugmyndin á bak við rammaáætlun var sú að með góðu faglegu mati og góðu ferli sem þverpólitískt traust er á geti allir sæst á hvernig við ætlum að haga hlutunum, því að það er mjög mikilvægt fyrir orkufyrirtækin að skipuleggja sig til framtíðar og sjá hvaða orkunýtingartækifæri eru fyrirliggjandi og fram undan. En það er líka mjög mikilvægt að farið sé í friðlýsingarferli og staðið sé við að fara í það ferli með þeim virkjunarkostum sem á að vernda.

Ég vil líka nefna að á sveitarfélögum hvílir sú lagalega skylda að taka tillit til rammaáætlunar í sínu aðalskipulagi. Það aðalskipulag á að duga til 20 ára, það er ekki verið að tjalda til einnar nætur. Hér ætti því ekki að vera neitt kapphlaup í gangi, við erum að sýsla hér með auðlindir þjóðarinnar og það þarf að hugsa lengra en fram yfir kjörtímabil ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.