144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu þar sem hún fór yfir staðreyndir máls og söguna eins og hún snýr að hv. þingmanni sem sat í síðustu ríkisstjórn og kom þá að þessu máli.

Ég kom líka að þessu máli þar sem ég sat í verkefnisstjórn um rammaáætlun 2. Mér þykir vænt um að hv. þingmaður leiðrétti hér að það hefði verið sú verkefnisstjórn sem raðaði í flokka, vegna þess að það hefur komið fram í máli fjölmargra stjórnarþingmanna sem hér hafa talað að við sem sátum í verkefnisstjórninni hefðum flokkað. Það var ekki svo.

Hins vegar láðist hv. þingmanni að geta þess að þegar tillaga síðustu ríkisstjórnar um flokkunina um rammaáætlun kom inn á þing urðu hér miklar deilur vegna þeirra breytinga sem ráðherrarnir lögðu til, þ.e. þar sem vikið var út frá tillögum hópsins sem flokkaði röðun okkar í verkefnisstjórninni. Það urðu miklar deilur í þinginu vegna þess að okkur sem þá sátum í stjórnarandstöðu þóttu ráðherrarnir vera að bregða út frá því ferli sem við töldum að við hefðum sammælst um að fara í. Ég man eftir að hafa haldið hér margar ræður um að við lögðum af stað í þessa vegferð til að reyna að hefja okkur upp fyrir pólitíkina, til að koma loksins á einhverju ferli þar sem væri horft til lengri tíma, brúa bilið á milli þeirra sem vilja nýta og vernda og finna jafnvægi. Það tókst ekki. Það tókst ekki vegna þessa inngrips frá þeim ráðherrum sem lögðu þessar tillögur fram. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort sú söguskýring sem birtist okkur í ágætri bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að þetta hafi verið hluti af pólitískum hrossakaupum milli þeirra flokka sem þá sátu í ríkisstjórn, (Forseti hringir.) eigi ekki við að rök að styðjast.