144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Ég geri ráð fyrir, hæstv. forseti, að þingmaðurinn hafi átt við að stjórnarandstaðan hafi flutt þessar þúsund ræður. Ég man eftir að hafa flutt nokkrar ræður af þessu tilefni og þar notaði ég bara nákvæmlega sömu orð og hv. þingmaður notar hér í ræðu sinni, fullkomlega óábyrg tillaga, kemur dagur eftir þennan dag, hugsa lengra en eitt kjörtímabil.

Þar erum við. Ég var afskaplega ósátt við þessa niðurstöðu á síðasta kjörtímabili. Ég held því fram að þarna hafi verið vikið frá því grundvallarsjónarmiði sem lá að baki allri þeirri miklu vinnu yfir þetta 20 ára tímabil sem okkar helstu sérfræðingar ásamt okkur, nokkrum leikmönnum sem vorum með í verkefnisstjórnarvinnunni, hafa lagt í. Það var afskaplega sorglegt að upplifa þá tíma í þinginu sem og að upplifa að sú tilraun til að hefja okkur upp yfir pólitíska karpið og horfa frekar á málefnið og til lengri framtíðar (Forseti hringir.) misheppnaðist. Það voru gríðarleg vonbrigði á sínum tíma.