144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kom mér satt að segja mjög á óvart þegar ég horfði á tíufréttirnar í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi og hæstv. forsætisráðherra fór að tala um að þær breytingartillögur sem við erum að ræða við rammaáætlun séu út af stöðu á vinnumarkaði, það sé þess vegna sem við séum að ræða þessi mál.

Það eru góðar umsagnir frá ferðaþjónustunni við breytingartillögurnar og það kemur mér á óvart að hæstv. forsætisráðherra skuli tala svona gegn atvinnugrein sem hefur skapað langflest ný störf, og hann talar um atvinnulífið eins og það sé aðeins stóriðja og orkufrekur iðnaður. Það kemur mér verulega á óvart. Í rauninni höfum við ekkert í höndunum um atvinnustefnu þessarar hæstv. ríkisstjórnar, (Forseti hringir.) en hún birtist kannski í umræddum orðum hæstv. forsætisráðherra í tíufréttunum í gærkvöldi.