144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa farið yfir þetta ferli allt saman þar sem hún tók auðvitað talsverðan þátt í því að móta það. Vissulega er það rétt sem hv. þingmaður kom hér inn á að þetta var tilraun til þess að leiða átakamál í íslenskri pólitík í einhvern farveg sem við gætum verið sammála um. Auðvitað er það svo að manni er brugðið, eftir að lögin um rammaáætlun voru samþykkt mótatkvæðalaust 2011, að nú í kringum afgreiðslu eða umræðu um þessa tillögu — við skulum vona að það verði ekki afgreiðsla — þá birtist gerólíkur skilningur hv. þingmanna á lögunum eftir því hvort um er að ræða þingmenn meiri hluta eða minni hluta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, því að vissulega virðumst við vera stödd í — ja, við erum í vanda stödd í þessari umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að tillagan geti ekki farið í gegn eins og hún lítur út núna, þ.e. tillagan frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég tel svo vera að þarna sé verið að fara fram hjá lögbundnum ferlum og mér finnst það ábyrgðarhluti þegar til að mynda hæstv. forsætisráðherra segir að hann telji að þessi tillaga og afgreiðsla hennar sé lykilatriði til að auka verðmætasköpun og leysa úr kjarasamningum eins og hér kom fram í dag og í fréttum í gær.

Hvaða ráð eru til lausnar? Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hún sér í því. Ég tel að þessi breytingartillaga geti ekki farið í gegn óbreytt. En þarf að skýra með einhverjum hætti lagarammann? Eða þurfum við hreinlega að setjast niður og fara yfir lögin eins og þau voru skrifuð til að tryggja sameiginlegan skilning manna á lögunum, sameiginlegan skilning hv. þingmanna minni hlutans og þeirra sem hafa skrifað álit frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti annars vegar og umhverfis- og auðlindaráðuneyti hins vegar, sem er greinilega allt annar en þeirra sem hv. þingmenn meiri hlutans standa fyrir? Hvað útskýrir þann skilning? Er þetta svona annar (Forseti hringir.) skilningur af hreinum ásetningi? Ég vil spyrja hv. þingmann um það.