144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef vissulega áhyggjur af þeirri stöðu sem er komin upp, því að það er alveg augljóst að ef breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar verður samþykkt þá er ekki lengur nein rammaáætlun í gildi, þá er ekkert traust lengur og öll þessi vinna og allt saman farið út um þúfur. Mér finnst alls ekki koma til greina að sú staða komi upp. Þess vegna er ég tilbúin til að mótmæla hér aftur og aftur, fara yfir þessi mál aftur og aftur, fara yfir anda laganna, fara yfir niðurstöðu umhverfisráðuneytisins, mig langar til þess að segja: þar til stjórnarmeirihlutinn áttar sig á alvarleika málsins, því að það virðist einhver léttúð vera að baki þeirrar tillögugerðar sem hér er uppi.

Í fyrsta lagi koma þessar tillögur fram við síðari umr. þingsályktunartillögunnar. Enginn möguleiki er eftir umræðu hér í salnum að taka málið inn í þingnefnd aftur heldur þarf bara að greiða atkvæði og ganga frá hlutunum, og þetta er um mál sem er mjög mikilvægt. Það er endanlegt þegar búið er að setja eitthvað í orkunýtingarflokk og ferlið er farið af stað, það er erfitt að taka það til baka. En verið er að ganga gegn öllu þessu ferli.

Við erum sannarlega í vanda stödd þegar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. umhverfisráðherra eru bæði nokkurn veginn samstiga meiri hluta atvinnuveganefndar í málinu og við erum í verulegri klemmu.