144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég tel það vera mjög mikilvægt atriði sem hún kemur hér að, þ.e. að léttúð er í kringum það form sem við samþykktum hér í lögum. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að fimm af sex hv. þingmönnum í meiri hluta atvinnuveganefndar sem skrifa undir meirihlutaálitið sátu ekki hér á þingi þegar lög um rammaáætlun voru samþykkt og sátu ekki heldur hér á þingi þegar við samþykktum þingsályktun 63:0 um að við ætluðum að bæta vinnubrögðin á Alþingi, að við ætluðum að breyta stjórnmálamenningunni og við ætluðum að fara að hlusta meira á fagaðila. Því skilur maður eiginlega ekki hvað fær hv. þingmenn til að telja að eðlilegt sé að ganga fram hjá lögbundnu ferli og setja sjálfa sig í það sæti að leggja faglegt mat á þá virkjunarkosti sem eru undir.

Hv. þingmaður sagði áðan að hún teldi málið alvarlegt, að það væri svo alvarlegt að við gætum í raun og veru sagt að lagaramminn um rammaáætlun væri farinn fyrir bí. Telur hv. þingmaður að ekki sé ástæða til þess í raun og veru að reyna þá að setjast yfir málið, að meiri hluti (Forseti hringir.) og minni hluti þurfi að setjast yfir það, því að við getum ekki staðið hér í margar vikur og rætt málið? En við getum um leið ekki horfið frá þeim kröfum sem við hljótum að gera að þingið fylgi, lögum og reglum í landinu.