144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, auðvitað gæti það hugsanlega orðið til gagns að setjast yfir málið og skoða það frá öllum hliðum. Við höfum kallað eftir því hér undir liðnum um fundarstjórn forseta að forustan í þinginu, forusta stjórnmálaflokkanna sem eru hér í þinginu setjist niður og fari yfir það.

Hins vegar er málið ekki þannig vaxið að hægt sé að fara efnislega í einhverjar samningaviðræður og það er kannski vandinn. Það er ekki hægt að sættast á: Ja, eigum við kannski að, þú veist. — Um leið og stjórnmálamennirnir eru farnir að segja sem svo: Ja, þú færð þessa virkjun ef ég fæ hina, er það jafn mikið brot á þessu ferli eins og tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar er. Við erum því í verulegum vanda en auðvitað tel ég að forseti Alþingis ætti að kalla fólk saman til að fara yfir málið og athuga hvort menn geti ekki áttað sig á anda laganna og kannski fletta upp í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem talað er um (Forseti hringir.) lagahyggju, en að minna sé farið eftir anda laga.