144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki á móti virkjunum. Ég er mjög stoltur af mörgum þeim virkjunarframkvæmdum sem Íslendingar hafa ráðist í. Ég er mjög stoltur af því að við skulum hita upp heimilin okkar á umhverfisvænan hátt og að við skulum geta boðið upp á umhverfisvæna, hreina, endurnýjanlega orku. Ég er mjög stoltur af þessu. Það ríktu heldur engar deilur um virkjanir eins og Búðarhálsvirkjun sem er nýjasta virkjunin sem hefur verið reist. Hrauneyjafoss, Búrfell og Sigalda eru allt saman flottar virkjanir og mikil verkfræðileg afrek. Við skulum hafa það á hreinu.

Sú orðræða og deila sem við eigum í snýst ekkert um það að sumir vilji bara alls ekki virkja, ekki neitt, og að aðrir vilji virkja allt. Hún snýst um að við erum að reyna að feta einhverja skynsamlega leið í þessu. Ég man alveg eftir því þegar Alþingi fór yfir strikið að mínu mati og að mati mjög margra í þessu þjóðfélagi, þegar Alþingi fór fram úr sér. Það var þegar hér var ákveðið að virkja á Kárahnjúkum. Það var gert með sérstöku lagafrumvarpi. Þá var engin rammaáætlun til, það var gert þvert á alls konar ráðleggingar sem þá lágu fyrir. Þetta var alls ekki fýsilegur virkjunarkostur og margir sögðu á þeim tíma að miðað við alla arðsemisútreikninga og miðað við það hvað átti að gera við alla þessa orku væri þetta ekki gáfuleg framkvæmd og margir bentu á þau gríðarlegu náttúruspjöll sem þarna mundu eiga sér stað. Ég sé eftir þeirri náttúru sem var eyðilögð á Kárahnjúkum. Ég held að Kárahnjúkavirkjun og allt það umstang, öll sú umræða, öll sú framkvæmd skilji eftir opið sár í þjóðarsálinni. Ég man eftir að hafa farið þarna um, skoðað þessa náttúru og séð fossana. Þarna voru stórbrotnir fossar sem við munum aldrei sjá aftur, þeir eru horfnir að eilífu og líka myndavélin sem vinur minn missti ofan í einn fossinn. Þetta var ógleymanleg sjón og þetta er óspjölluð náttúra sem þarna var eyðilögð.

Ég er einn af þeim sem töldu að þarna hefði algjörlega farið úr böndunum umræðan um verðmætasköpun, aukinn hagvöxt og að við þyrftum að koma öllu þessu í verð. Mér fannst eins og þetta þjóðfélag ætlaði sér að selja barnið til að eiga fyrir bleiunum. Mér fannst eins og þarna færum við yfir mörkin. Það eru þessi mörk sem við þurfum alltaf að finna í þessari umræðu.

Þetta er einstakt land sem við eigum, ótrúleg náttúra, oft alveg ótrúlega hrá en hún skilar manni krafti. Við vitum þetta öll. Það er ótrúlegt að upplifa hvernig náttúra Íslands orkar á mann. Hún er grundvöllur okkar hérna. Hún er það sem við eigum. Við höfum stundum farið yfir mörkin og í þágu hagvaxtar og verðmætasköpunar höfum við hoggið af þessum grundvelli, nánast sjálfum tilganginum með því að búa hérna. Ég vonaði í eftirleik Kárahnjúka og allra þeirra deilna sem urðu um þá framkvæmd, óútkljáða að mörgu leyti, að þessi mál færu í skynsamlegri farveg.

Upp úr 1995 var byrjað að vinna við það að búa til þennan farveg sem kallast í daglegu tali rammaáætlun og byggist á þeirri hugsjón að eina leiðin til að nálgast svona djúpa tilfinningalega deilu á meðal þjóðar sé að byggja á upplýsingum, byggja á lýðræði, hanna eitthvert ferli þar sem við förum faglega í saumana á því hvað er í húfi út frá ótal þáttum, að við leyfum almenningi að hafa ríka aðkomu að því hvað eigi að vera virkjunarkostir í nýtingarflokki, hvað við viljum vernda um aldur og ævi og hvað eigi að skoða betur. Lög um þetta ferli voru samþykkt hérna með öllum greiddum atkvæðum og það voru stór tímamót. Það sem við erum að ræða núna er hvort við ætlum að hleypa allri þeirri vinnu, öllu þessu ferli, algjörlega upp í loft. Það erum við að ræða núna. Það er það sem stendur til með breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Þar er algjörlega gengið fram hjá þessu ferli. Þar er farið með þessi mál ekki bara í gamla farið þar sem voru lögð fram frumvörp um einstaka virkjunarkosti heldur miklu verra, ef þetta gengur eftir er hægt að ákveða virkjunarkosti með breytingartillögu við önnur mál. Það er fullkomlega fáránlegt og óásættanlegt þannig að við mótmælum þessu auðvitað, við sem erum núna í minni hluta á þinginu.

Hvað gerðist á síðasta kjörtímabili? Það er stundum sagt í umræðunni að þessum málum hafi verið hleypt upp í loft á síðasta kjörtímabili. Í fyrsta lagi finnst mér rosalega furðulegur málflutningur að segja að ef eitthvað hafi verið gert rangt á síðasta kjörtímabili sé það réttur næsta manns að gera líka rangt. Ég upplifi mín markmið með stjórnmálaþátttöku allt öðruvísi. Mér finnst mikilvægt að endurtaka ekki mistök annarra, a.m.k. er það ekki réttlæting fyrir mínum gjörðum að einhver annar hafi gert mistök og þá sé það réttur minn að gera líka mistök. Ef einhver mistök hefðu raunverulega verið gerð á síðasta kjörtímabili væri þetta samt furðulegur málflutningur. Hvers vegna þá ekki að reyna að stoppa upp í götin, læra af mistökunum og gera þetta rétt núna?

Svo er líka af og frá að eitthvað hafi verið gert vitlaust á síðasta kjörtímabili. Það er grundvallaratriði varðandi rammaáætlun og umgengni okkar við náttúruna, mundi ég segja, að láta hana njóti vafans. Ég tók þátt í umræðunum hér á síðasta kjörtímabili um rammaáætlun þar sem vissulega var gert ráð fyrir því í tillögu þáverandi stjórnarmeirihluta að virkjunarkostir sem lagt hafði verið til að færu í nýtingarflokk færu í biðflokk vegna þess að alls konar upplýsingar komu fram eftir að 225 umsóknir bárust ráðuneytinu. Hvað átti að gera í þeirri stöðu? Það er spurning sem allir verða að takast á við sem taka þátt í þessari umræðu núna. Hvað átti að gera í þeirri stöðu? Verkefnisstjórnin hafði lagt til að tilteknir virkjunarkostir, þar á meðal í neðri hluta Þjórsár, ættu að fara í nýtingarflokk. Svo var farið í lögbundið umsagnarferli með þetta allt saman, umsagnir bárust, sterkar röksemdir voru fyrir því í nokkrum umsögnunum, bent á það með sterkum röksemdum að laxastofninn í Þjórsá væri í hættu ef það yrði ráðist í þessar virkjanir. Hvað átti að gera á þessum tímapunkti? Átti að segja: Nei, nei, nei, laxastofninn er ekkert í hættu. Við bara virkjum þetta?

Er það hin rétta leið gagnvart náttúrunni í þessu umhverfi öllu þar sem við deilum svona mikið um það hvar eigi að virkja og hvar vernda? Um hvað snerist þetta? Þetta snerist um það að meiri hlutinn á síðasta kjörtímabili ákvað að skoða málið betur og setja þessa virkjunarkosti bara í bið. Ég man eftir umræðunni hérna. Maður þurfti endalaust að staglast á því við þáverandi minni hluta á þingi að það væri ekki verið að setja þessa virkjunarkosti í vernd, það væri ekki verið að útiloka um aldur og ævi að þarna yrði virkjað, þeir hefðu bara verið settir í bið. 16 aðrir virkjunarkostir í þingsályktunartillögunni voru í nýtingarflokki. Var það ekki bara ágætt? Mátti ekki gefa laxastofninum í Þjórsá þetta, einhverjum þeim mikilvægasta í heimi? Mátti hann ekki njóta vafans? Af hverju ekki? Og hvað var síðan gert? Því var sérstaklega beint til verkefnisstjórnarinnar að hún flýtti sér við að útkljá nákvæmlega þessi álitamál og svara nákvæmlega þessum spurningum um þessar virkjanir. Munu þær hafa áhrif á laxastofninn á óafturkræfan hátt? Nú er ég bara að tala um virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Þetta er það sem gerðist, þetta er allt uppnámið.

Þarna voru ekki lagðar til óafturkræfar breytingar á náttúrunni. Það var samþykkt að fara í frekari rannsóknir og því var beint til verkefnisstjórnarinnar að flýta sér með þær. Eftir að umhverfisráðherra var enn frekar búinn að biðja verkefnisstjórnina að klára nákvæmlega þessar rannsóknir stóðum við frammi fyrir því að verkefnisstjórnin var bara búin að ljúka umfjöllun og klára sitt faglega mat og rannsóknir á einum af þessum virkjunarkostum, Hvammsvirkjun. Það er ágætlega rakið í tillögu hæstv. umhverfisráðherra. Þar er ágætlega rakið hvernig þáverandi umhverfisráðherra hélt áfram þessum samskiptum við verkefnisstjórnina, bað um að þessar rannsóknir yrðu kláraðar og verkefnisstjórnin svaraði því bara málefnalega að hún væri í miðjum klíðum, það næðist ekki að klára þetta en Hvammsvirkjun mundi klárast. Síðan stendur í niðurlagsorðum greinargerðarinnar með þingsályktunartillögunni að á grundvelli þess sem fram hafi komið og samkvæmt ákvæðum laga nr. 48/2011 væri í þingsályktunartillögunni lagt til að virkjunarkosturinn Hvammsvirkjun yrði flokkaður í nýtingarflokk áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Lögin heimila ekki ráðherranum að leggja til að neinir aðrir virkjunarkostir fari í nýtingarflokk en þessi. Þetta er eins skýrt og verða má.

Það er ótrúlegt þegar við erum með svona skýra lagaumgjörð, þegar svona skýrt er kveðið á um hvernig á að leggja til að virkjunarkostir fari í verndarflokk, biðflokk eða nýtingarflokk hér á landi og ráðherra er alveg skýr með það að hann er bundinn af þessu, skuli hæstv. forseti Alþingis úrskurða í því sem ég hef kallað ótrúlegu lögfræðilegu spíkati að þingmönnum sé samt sem áður frjálst að leggja til hvað sem er á þingi, leggja til hvaða breytingar sem er við þessa þingsályktunartillögu og leggja til að hvaða virkjunarkostir sem eru fari í nýtingarflokk. Þeir eru óbundnir af lögunum. Er það svo? Ráðherra er í sínum tillöguflutningi bundinn af lögunum en ekki þingmenn.

Hvaða staða er þá komin upp hér? Geta menn farið að spila einhverja klækjaleiki fyrir opnum tjöldum? Ráðherrar eru yfirleitt þingmenn líka. Nú er rætt um það í öðru samhengi að sumir ráðherrar ætli að fara að leggja fram mál í krafti þingmennsku sinnar fram hjá ríkisstjórninni. Gæti þá hæstv. umhverfisráðherra gert þetta líka, verið bundinn af lögunum sem umhverfisráðherra og mátt bara leggja fram virkjunarkostinn Hvammsvirkjun en brugðið sér svo í þingmannsgallann morguninn eftir og lagt fram breytingartillögu við eigið mál? Er það ekki hægt? Má það ekki? Í hvers lags rugl erum við komin með þetta allt? Þetta er ótrúleg vitleysa og ótrúlegt að verða vitni að þessu öllu saman. Að sjálfsögðu gengur þetta ekki upp.

Ég fór um helgina ásamt félögum mínum úr Bjartri framtíð að Urriðafossi sem ekki er orðinn að Urriðafossvirkjun. Það var kynngimagnað, þetta er vatnsmesti foss Íslands. Hann lætur ekki svo mikið yfir sér en á einum stað sér maður hvernig hann fellur ofan í sjálfan sig og breytist í einhvers konar rennu. Það er eitthvað dulmagnað við þennan foss. Eitt fannst mér alveg kristaltært þegar ég horfði á þennan foss, stóð andspænis þessu náttúruundri, og það er að ég á ekki Urriðafoss. Og Jón Gunnarsson á ekki Urriðafoss, hann ræður ekki þessum fossi. Það ræður honum enginn. Eina leiðin til að taka einhverja ákvörðun um það hvort við viljum spilla og eyðileggja svona náttúruundur um aldur og ævi er í gegnum langt ferli. Það er í gegnum alls konar þrotlaust, faglegt mat, það er í krafti lýðræðis þar sem við veitum öllum þeim sem mögulega hafa skoðun á þessu færi á að koma með athugasemdir. Þannig ferli er rammaáætlun. Ég mundi leggjast gegn því að virkja Urriðafoss undir öllum kringumstæðum. Eina leiðin til að ég gæti verið sáttur við að samfélagið tæki slíka ákvörðun væri í gegnum það ferli sem rammaáætlun er.

Í fyrirspurnatíma áðan hélt hæstv. forsætisráðherra því fram að Björt framtíð vildi virkja allar sprænur og alla hveri vegna þess að við viljum leggja sæstreng til Evrópu, til Bretlands. Í öllu falli viljum við kanna þann möguleika. Mig langar aðeins að tæpa á þessu í lokin, þessum útúrsnúningi hæstv. forsætisráðherra. Eitt af því sem ég hef verið afskaplega ósáttur við í virkjunarmálum Íslendinga er það hvernig við höfum í gegnum tíðina í raun gefið frá okkur þessa auðlind, þessa orku, jafnvel svo að það hefur verið talað um það opinskátt að við afhendum orkuna. Um þetta hefur forstjóri Landsvirkjunar talað um nokkurra ára skeið og sagt að verkefnið væri að reyna að fá meira fyrir þessi verðmæti. Ég tel að það eigi að vera stefna Íslendinga að virkja lítið en fá mikið í stað þess sem virðist vera stefna meiri hluta atvinnuveganefndar, að virkja mikið en fá lítið. Þeirri stefnu hafna ég. Og mér fannst mjög merkilegt að sitja ársfund Landsvirkjunar síðast og upplifa það hversu sáttur maður er við stefnu Landsvirkjunar sem er orkuframleiðslufyrirtækið í landinu. Þar er nákvæmlega þetta sagt: Reynum að fá það mesta fyrir þessar auðlindir og gerum það í sátt. Eitt það merkilegasta sem forstjóri Landsvirkjunar sagði á fundinum var einmitt það að ef við fáum meira fyrir orkuna, t.d. með því að selja hana í gegnum sæstreng til Bretlands, (Gripið fram í: En þið …) mun krafan um að virkja meira þagna (Gripið fram í: En til þess …) vegna þess að sátt þjóðfélag mun ekki fara fram á þessar virkjunarframkvæmdir. Ég tek meira mark á forstjóra Landsvirkjunar en hæstv. umhverfisráðherra þegar að þessu kemur. Þetta finnst mér vera stefnan.

Ég hafna þeirri nauðhyggju að við þurfum að rjúka í virkjanir til að leysa kjaramál samtímans. Allar viðvörunarbjöllur hringja þegar hv. formaður atvinnuveganefndar talar eins og hann sé líka búinn að ákveða að öll þessi orka sem hann vill núna virkja í hvelli, helst í gær, alveg sama um laxinn, alveg sama um allt, eigi að fara í orkufrekan iðnað. Það á að afhenda hana bara. Við gerum þungar athugasemdir við þessa stefnu. Þetta hangir líka á spýtunni. Ef menn ætla áfram að þjösnast í virkjanir og gefa orkuna lægstbjóðanda aftur og aftur skulum við ekki virkja neitt. Áður en við ákveðum einhverjar frekari virkjanir ættum við í öllu falli að gera það upp við okkur hvort við ætlum að fá eitthvað fyrir þessa auðlind eða ekki.