144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áhugaverð spurning. Að sjálfsögðu hvílir á okkur Íslendingum sú skylda fyrir hönd alls mannkyns að varðveita þá náttúru sem okkur hefur verið falið að varðveita. Og ef því mætti halda fram að orkan sem við ætluðum að flytja út eða koma í verð væri unnin á grundvelli náttúruspjalla, óafturkræfra, þá mætti kannski halda því fram að ekki væri lengur um hreina orku að ræða.

Mér finnst mikilvægt að ræða þetta með arðsemina og mér finnst að við eigum að leggja við hlustir þegar forstjóri Landsvirkjunar segir að meiri arðsemi muni ekki, heldur þvert á móti, leiða til þess að það verði allt virkjað í drasl. Mér finnst þetta sannfærandi vegna þess að ég held að við séum alltaf að virkja svona rosalega mikið af því að við erum bara aldrei að fá nógu mikið fyrir rafmagnið sem við erum að selja með þessum virkjunum.