144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fína ræðu. Hann fór aðeins inn á muninn á því að setja eitthvað í bið, eða bíða með að ákveða hvað eigi að gera við eitthvað, og hins að ákveða að setja eitthvað í nýtingarflokk og að það sem verið sé að gera hér sé öfugt við það sem gert var á síðasta kjörtímabili. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður geti varpað ljósi á það, með hliðsjón af reynslu sinni á fyrra kjörtímabili, hvaða lagalegar afleiðingar það gæti haft á virkjanirnar sjálfar ef þessar breytingartillögur yrðu samþykktar. Væntanlega verður þetta allt saman kært alveg fram og til baka, gerir maður ráð fyrir. Þá vek ég athygli á því að ég er ekki að tala um það hvort breytingartillagan sé þingtæk heldur það hvort niðurstaðan af þingsályktun sem á að vera samkvæmt rammaáætlun sem síðan stenst ekki lög — hvort virkjanirnar séu löglegar, hvort þetta sé ekki ákveðin hætta við að fara þessa leið. Ég set það sérstaklega í samhengi við það að hér er verið að breyta úr bið yfir í nýtingu á móti því að nýta ekki strax og bíða.