144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef satt best að segja ákveðnar áhyggjur af þessum þætti málsins. Það sem stingur í augun er það — þegar maður skoðar málið frá seinasta kjörtímabili, sem ég hef þó eingöngu getað gert hér í þingsalnum á meðan aðrir hafa verið að ræða málin, maður þarf alltaf að vera að gera tvo hluti í einu hérna — að ef ákvörðun um að setja eitthvað í bið yrði kærð og niðurstaðan af því yrði á þann veg að sú ákvörðun hafi verið röng mundi það varla þýða að það mætti sjálfkrafa virkja. Ef kostur er hins vegar tekinn úr biðflokki yfir í nýtingarflokk og sú ákvörðun er dæmd ólögmæt, þá þýðir það að hann eigi heima í bið eða þannig mundi ég skilja þetta. En ég hef áhuga á öllu því sem hv. þingmaður getur sagt til að varpa ljósi á það hvernig málflutningurinn var á seinasta kjörtímabili gagnvart þessum þætti málsins. Hér er þessi breytingartillaga og þessi aðför að rammaáætlun réttlætt með þeirri meintu aðför sem átti sér stað á seinasta kjörtímabili þannig að allt það sem hv. þingmaður getur sagt okkur um muninn á þessum tveimur meintu aðgerðum held ég að sé mikilvægt innlegg inn í þessa umræðu.