144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er himinn og haf þar á milli. Á síðasta kjörtímabili kom verkefnisstjórnin með tillögur að skiptingu í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Það fór í umsagnarferli, mjög mikill fjöldi umsagna barst áður en málið var lagt fram í þinginu og ágengar spurningar vöknuðu varðandi það að setja þessar virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Skrokköldu og fleiri virkjanir í nýtingarflokk.

Mér finnst spurningin, sem allir þurfa að svara sem gagnrýna þetta ferli, vera sú hvað hafi átt að gera þegar umsagnir bárust með rökstuddum athugasemdum og þegar náttúra Íslands er annars vegar, þegar laxastofninn í Þjórsá er annars vegar. Á bara að kýla á það, virkja það? Ekki þetta rugl. Auðvitað ekki. Að virkja og setja í nýtingarflokk er gagnvart þessu miklu drastískari og óhóflegri aðgerð en að setja virkjunarkosti í bið og biðja verkefnisstjórnina sérstaklega, og takið eftir því, að skoða þær athugasemdir sem hún verður að fá frið til að klára.