144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra hve mikill asi er í kringum það hjá ríkisstjórninni og meiri hluta atvinnuveganefndar að virkja. Annað hljóð er nú hjá ungu fólki sem býr á þessu svæði, eins og við Þjórsá. Mig langar aðeins að vitna í umsögn samtaka þeirra um þetta mál. Þau tala um að þetta sé óafturkræf framkvæmd og þau vilji frekar sjá uppbyggingu ferðaþjónustu sem gefur ungu fólki tækifæri til atvinnu. Virkjunarframkvæmdir munu samkvæmt gefnum upplýsingum ekki skapa mörg framtíðarstörf í sveitinni eða möguleika í ferðaþjónustu, sem eru ótakmarkaðir og ónýttir á þessu svæði. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessu.

Í dag eru 80% af orku í landinu framleidd á Suðurlandi en einungis 4% eru nýtt á því svæði. Stóriðjan eyðir fimm sinnum meiri orku en heimilin. (Forseti hringir.) Ég vil aðeins heyra vangaveltur hv. þingmanns í þessu máli.