144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. „Hættu að telja, þetta er ég.“ Það eru orð sem koma upp í hugann gagnvart því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sé byrjuð að telja. Ég er búinn að flytja eina ræðu í þessu máli og það eru held ég tveir dagar síðan ég var sakaður um að vera með málþóf. Þetta er allt svolítið öfugsnúið.

Af hverju erum við að ræða um fundarstjórn forseta? Það eru um það bil 25 þingmenn sem eru mjög ósáttir, hundóánægðir með fundarstjórn forseta, það hvernig fundinum er stjórnað. Þeir sem gagnrýna að það sé komið svona oft upp undir liðnum um fundarstjórn til að gagnrýna fundarstjórn forseta, vilja þeir hinir sömu segja okkur hvernig við eigum að koma því öðruvísi á framfæri að við erum ósátt við fundarstjórn forseta? Hvaða aðrar leiðir eru hér? Eigum við bara að hætta þessu og (Forseti hringir.) setja status á Facebook? Allir sáttir. Það ríkir (Forseti hringir.) blússandi óánægja í þinginu. (Gripið fram í.)