144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er einmitt nákvæmlega þetta. Það er hægt að leysa öll mál með því að tala saman. Hæstv. forseti Alþingis fer með þetta vald, hann getur stuðlað að því. Hann fer með algerlega óskorað dagskrárvald hér í þinginu, hann ákveður hvernig dagskráin á að vera. Hann getur líka ákveðið hvaða spurningum hann svarar og hverjum ekki, þannig að hér getur maður komið upp og þráspurt og hæstv. forseti getur kosið að svara engu. En með hátterni sínu, ákvörðunum sínum ákveður hann líka hvernig þinghaldið er, hvaða bragur er á þinghaldinu. Hann ákvað að setja þetta mál á dagskrá vitandi að það mundi valda miklum deilum í þingsal. Það er meðvituð ákvörðun. Hann ákveður að stilla minni hlutanum upp við vegg, (Forseti hringir.) það finnst mér mjög ómálefnalegt. Ég bið hæstv. forseta að íhuga öll þau verkfæri sem hann er með í verkfæraboxinu, möguleg til að bæta þinghaldið, til að gera það betra. (Forseti hringir.) Það er í hans höndum.