144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða vegna alhæfinga hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um að þessi breytingartillaga sé í samræmi við lög. Ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála er ósammála henni, en það var nú ekki það sem ég ætlaði að tala um hér heldur ætlaði ég að segja að það hefur komið svolítið á óvart varðandi þá tillögu sem var lögð fram fyrir margt löngu og svo kom breytingartillaga fram með ýmsum hætti og þetta hefur valdið uppnámi hér í allan vetur í þinginu, að þetta er allt í einu orðið lykilmál fyrir kjarasamninga. Þá vil ég heyra í hv. þingmanni, af því að hún fór vel yfir þetta með álverin og fleira, hvort hún telji það vænlega leið til uppbyggingar og vaxtar að einblína eins og þessi ríkisstjórn virðist ætla að gera á framkvæmdatíma í kringum virkjanir, það sé innspýting í hagkerfið en ekki sé hugað að því hvers konar atvinnulíf innspýtingin skapi. Er þetta góð stefna?