144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður hefur ekkert sérlega gaman af því að halda áfram að ræða síðasta kjörtímabil. En af því að við erum alltaf að tala um vinnubrögð og menn finna sér einhverja fótfestu í vinnubrögðum síðasta kjörtímabils þegar þeir rökstyðja þetta mál, það virðast vera einu rökin sem þeir hafa, langar mig að spyrja hv. þingmann að einu. Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt lög og í þeim lögum var bráðabirgðaákvæði. Bráðabirgðaákvæðið fjallaði um það hvernig skyldi fara með fyrstu rammaáætlunina sem samþykkt yrði á grundvelli laganna í þinginu.

Sú rammaáætlun var síðan samþykkt árið 2013. Í því ferli var farið út fyrir það sem við þekkjum sem lagaumhverfi núna og þá var kveðið á um 12 vikna umsagnarferli eftir opið umsagnarferli, eftir að flokkunin hafði farið fram hjá formönnum faghópa innan verkefnisstjórnarinnar. Þar komu á þriðja hundrað athugasemdir sem ráðherrarnir ákváðu að þeir ætluðu ekki að taka afstöðu til heldur biðja verkefnisstjórnina um að gera það og setja þess vegna þá kosti í biðflokk sem fengu mestar athugasemdir. Hvernig hefði hv. þingmaður farið með umsagnir eftir slíkt 12 vikna ferli við þær aðstæður?