144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að taka þátt í þessari umræðu um rammaáætlun, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, og fara aðeins yfir söguna. Þessi lota um framtíð áætlunarinnar um vernd og orkunýtingu landsvæða og þar með náttúruverndar í landinu okkar hefur nú staðið um nokkra hríð og rifjuð hafa verið upp tildrög þess að umrædd áætlun, sem í daglegu tali er yfirleitt kölluð rammaáætlun, varð til. Þó að ferlið, sem lauk með samþykkt laga um verndar- og orkunýtingaráætlun árið 2011 og þingsályktun nr. 13/141 í janúar árið 2013, skýrir margt um tilurð og gildi rammaáætlunarinnar ætla ég engu að síður að fara aðeins yfir það.

Fyrsta íslenska náttúruverndarlöggjöfin var sett árið 1956 og eftir það var Náttúruverndarráði komið á fót. Þessi löggjöf endurspeglaði þau viðhorf að náttúruvætti hefðu gildi í sjálfu sér og að skylt og rétt væri að vernda náttúruna fyrir ágangi og eyðileggingu. Lögin fólu í sér viðbrögð við þeirri staðreynd að sífellt öflugri tækni til mannvirkjagerðar og ræktunarframkvæmda höfðu orðið til þess að náttúruvættum var ógnað og skeytingarleysi við notkun ýmissa eiturefna ógnaði tilveru dýrastofna og olli sjúkdómum í fólki víða um lönd en notkun slíkra efna var þó blessunarlega lítil á Íslandi. Með lögum um náttúruvernd var þó brugðist við kalli tímans um vandaðri framgöngu, gætni og ábyrgð í athöfnum mannanna gagnvart náttúrunni og þar var fylgt þróun sem löngu var hafin erlendis og átti sér víða stað í iðnvæddum ríkjum.

Gerð stórvirkjana á hálendi Íslands hófst með byggingu Búrfellsvirkjunar á árunum 1966–1969 og varð þá ljóst að næg tæknileg geta væri til þess að umbylta víðernum landsins og svipta þau sínum náttúrulegu sérkennum. Tveimur árum eftir að Búrfellsvirkjun var lokið var náttúruverndarlögum breytt og úr því var leitað álits Náttúruverndarráðs á virkjunarframkvæmdum uns það var lagt niður árið 2001. Með því móti var leitast við að kalla fram sjónarmið náttúruverndar þegar virkjunarkostir voru metnir þótt vissulega hefði þurft og átt að gera veg þeirra langtum meiri en raun varð á þegar lokaákvarðanir voru teknar. Allt frá byggingu Búrfellsvirkjunar hafa staðið miklar deilur í landinu um virkjunarbyggingar og áhrif þeirra þar sem ýmis sjónarmið hafa tekist á. Ég nefni hér aðeins nokkur en náttúruvernd, stóriðjustefna, ferðaiðnaður, fjölbreytt atvinnulíf og einsleitt atvinnulíf eru meðal þess sem oft ber á góma og reynt hefur verið að meta gildi ósnortinnar náttúru á móti nýtingarsjónarmiðum út frá ýmsum ólíkum sjónarmiðum.

Umræða um náttúruvernd og gildi ósnortinnar náttúru hefur staðið áratugum saman hér á landi og vissulega skilað okkur ýmsu jákvæðu, þar á meðal áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þ.e. rammaáætluninni sem við ræðum hér. Rammaáætlunin er afrakstur ferils sem stóð áratugum saman og meginmarkmið hennar var og er að orkunýting fari fram á eins faglegum grunni og nokkur kostur er og að verndarsjónarmiða verði gætt enda sé ósnortið land verðmætt í sjálfu sér og því afar mikið í húfi þegar því er ráðstafað.

Mælt á kvarða fjárhagslegs ábata hefur þetta sjónarmið vissulega sannast á undanförnum árum með sívaxandi ferðamannastraumi hingað til lands, en þar er á ferðinni fólk sem einkum leggur leið sína hingað til lands til að njóta þess sem óspillt náttúra okkar hefur upp á að bjóða. Þetta hefur aukið hróður landsins okkar til muna meðal þjóðanna og tekjurnar af starfseminni hafa komið landsmönnum til góða. Ferðaiðnaðurinn hefur kennt okkur mörgum hverjum að meta betur en áður gildi hinna ósnortnu víðerna Íslands og hina sérstæðu náttúru landsins sem heildar eða svo ætla ég að vona þótt vissulega gefi margt í þeim málatilbúnaði sem hér hefur verið hafður uppi annað til kynna.

Þróun síðustu ára á vettvangi ferðaiðnaðar hefur einmitt sannað það, sem löngum var haldið fram af náttúruverndarsinnum, að óspillt náttúra hefur gildi í sjálfri sér sem gerir hana að eftirsóknarverðri upplifun. Ferðamannaiðnaðurinn byggist á hróðri íslenskrar náttúru og vilja ferðafólksins til að reiða fram fé til að geta notið töfra Íslands. Það hefur margítrekað komið fram í könnunum sem gerðar hafa verið á ástæðum þess að fólk heimsækir landið okkar. Með þeim hætti hefur íslensk náttúra orðið okkur tekjulind og undirstaða þess atvinnuvegar sem nú skapar mestan gjaldeyri og er þannig auðlind sem leggur mikilvægan skerf til fjárhagslegrar afkomu okkar. En þótt svo væri ekki bæri okkur engu að síður að vernda íslensk náttúruvætti og víðerni sem ómetanlegan hluta umhverfis okkar og náttúru og gæta þess að þau samfélagsverðmæti sem í náttúrunni búa varðveitist óspillt til komandi kynslóða.

Virðulegi forseti. Í rammaáætlun er þeim möguleikum sem taldir eru vera á virkjun vatnsafls og jarðvarma til orkuframleiðslu skipt í þrjá flokka, orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Þessi flokkun er gerð á grundvelli viðamikils mats sérfræðinga og athugasemda frá almenningi. Heiti flokkanna lýsa að sjálfsögðu inntaki þeirra.

Í nýtingarflokki eru þau svæði þar sem talið er verjandi að nýta orku með tilliti til efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra sjónarmiða.

Í biðflokki eru þau svæði sem ekki þykir fært að taka fullnaðarákvörðun um vegna skorts á viðhlítandi rannsóknum á náttúrufari og mati á líklegum afleiðingum orkunýtingar.

Í verndarflokki eru svo þau svæði þar sem ekki þykir fært að ráðast í virkjanir og talin er ástæða til að friðlýsa fyrir orkuvinnslu. Þar er, samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, skylt að vinna að friðlýsingu gagnvart orkuvinnslu.

Vert er að geta þess að það kemur einmitt skýrt fram í áliti minni hlutans að hér hefur ekki verið farið af stað og ekki verið sett fé í friðlýsingar sem eru þó löngu samþykktar.

Í dag og undanfarna daga höfum við verið að ræða færslu virkjunarkosta úr biðflokki í nýtingarflokk og þykir okkur sem mótfallin erum þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld hyggjast gera að þar hafi oft verið farið fram af offorsi nú á vordögum og í vetur reyndar líka og án þess að tekið hafi verið fullt tillit til þeirra verkferla sem liggja að baki rammaáætluninni, sem hefur ítarlega verið gerð grein fyrir hér. Það hefur verið leitast við að rýra gildi hennar sem faglegs verkfæris til yfirvegaðrar og vandaðrar ákvarðanatöku með því að þvinga virkjunarkosti úr einum flokki í annan og fagleg sjónarmið hafa verið lögð fyrir róða.

Um þetta hefur margt verið sagt og skrifað undanfarið en mig langar að nota tækifærið og fara hér nokkrum orðum um þriðja flokk rammaáætlunarinnar, þ.e. verndarflokkinn, enda má segja að í honum sé fólginn sá megintilgangur rammaáætlunarinnar að varðveita þau verðmæti sem ósnortin náttúra felur í sér fyrir okkur sem byggjum landið núna og, sem er það allra mikilvægasta, fyrir framtíðina, fyrir kynslóðir okkar framtíðar.

Í verndarflokki rammaáætlunar eru nú 11 vatnsaflsvirkjunarkostir og 9 jarðvarmavirkjunarkostir. Í raun eru þetta þó alls ekki virkjunarkostir heldur þvert á móti vatnsföll og jarðhitasvæði sem skulu njóta verndar og þar fer orkuöflun ekki fram. Vernd þessara svæða, tryggingin fyrir því að komandi kynslóðar fái notið þeirra gæða að eiga þau ósnortin, er að mínu mati miklu mikilvægara verkefni en bygging orkuvera eins og málum háttar nú. Stundum er látið eins og það vanti sárlega raforku en ég tel að sú sé alls ekki raunin. Það vantar sem betur fer ekki raforku til almennings, hvorki til heimila né atvinnureksturs, og ekki skortir okkur orkufrekan mengandi þungaiðnað til að svelgja í sig þá hreinu orku sem hér er unnt að framleiða, svo mikið er víst. Það er nóg komið af slíku að mínu mati. Það er ekki þannig ástatt að neyðarástand sé í raforkumálum vegna orkuskorts og í raun er engin ástæða til að fara fram með þeim hætti sem hér er gert, við að færa svæði í nýtingarflokk, með eins lítilli fyrirhyggju og ég tel að raunin hafi hér verið.

Ég tek undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, sem hér talaði áðan, að það væri meiri og meiri ástæða til að huga að því hvernig við getum komið þessu fyrir hér innan lands á milli landshluta en að ætla að fara að virkja meira.

Virðulegi forseti. Forgangsröðun felur það í sér að taka eitt fram yfir annað og verður forgangsröðunin þeim mun haldbetri sem rökin fyrir henni eru ítarlegri og áhrif forgangsröðunarinnar betur til þess fallin að leysa úr þeim málum sem henni er ætlað að takast á við. Rammaáætlun felur í sér ákvarðanatöku sem er náskyld forgangsröðun þar sem kostir eru flokkaðir og eitt tekið öðru framar. Valið sem í rammaáætlun felst leiðir til þess að beita verður forgangsröðun um þau verkefni sem af henni hljótast. Stjórnvöld hafa val um það hvort þau beina kröftum sínum að því að drösla virkjunarkostum úr biðflokki í nýtingarflokk með handafli og í ósætti við umhverfi sitt og gegn tilgangi rammaáætlunar eða axla ábyrgð á verkefnum áætlunarinnar og gera ráðstafanir til að vernda þau svæði sem eru í verndarflokki.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir lagði í vetur er leið fram fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um stöðuna á friðlýsingu svæða og virkjunarkosta í verndarflokki rammaáætlunar. Það verður að segjast, virðulegi forseti, að svör hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem má finna á þskj. 773 voru ansi dapurleg. Ýmislegt er í athugun varðandi hin 12 svæðin sem um er að ræða, samkvæmt svörum hæstv. ráðherra, en ekki liggur fyrir nein tímasett áætlun um framvinduna, engin fjárhagsáætlun heldur sem er afskaplega dapurlegt. Það er verið að spá og spekúlera eitthvað en ekki sést til neinna aðgerða. Mér finnst þetta satt að segja óttaleg lausatök á málinu. Það má segja að viðkomandi sé laus við þá áfergju og áræðni sem einkennir atlögurnar að biðflokki rammaáætlunar. Þetta framlag var ekki til þess fallið að vekja bjartsýni um að unnið væri af einurð að því að ljúka friðunarferli heldur einkennast svörin af hálfvelgju, undanslætti og mér liggur við að segja roluskap.

Framvinda mála hefur enda gert það öldungis ljóst að friðunarmálum hefur verið skotið langt aftur fyrir nýtingarmálin síðan núverandi hæstv. ríkisstjórn komst til valda og hefur kosið að leggjast í hvern leiðangurinn eftir annan til að koma rammaáætlun í uppnám. Hvað veldur þessari ófremd, virðulegi forseti? Hvers vegna er sótt svona hart nú að náttúruvernd? Hvers vegna er atlaga gerð að landinu og fyrir hvern? Hvers vegna er lögð svona mikil áhersla á að auka nýtingu vatnsafls og jarðvarma þegar engin aðkallandi þörf er fyrir það? Hvað veldur því að ekki er tekið til við að vernda brýna hagsmuni þjóðarinnar sem snúa að náttúruvernd, einmitt núna þegar ferðaiðnaðurinn skilar okkur mestum tekjum allra atvinnugreina? Hefur hæstv. ríkisstjórn eitthvað á móti þeirri atvinnugrein eða hver er eiginlega ástæðan fyrir þessari furðulegu forgangsröðun?

Virðulegi forseti. Sagan af framvindu íslenska samfélagsins er ekki alltaf saga framþróunar. Stundum miðar málum áfram en á öðrum tímum eru stigin skref aftur á bak eða gengið í hringi. Við erum á slíkum stað í sögunni núna, hygg ég, að minnsta kosti hvað náttúruverndarmál varðar. Sú viðleitni sem höfð er uppi af hæstv. ríkisstjórn miðar einkum að því að draga úr gildi og áhrifum náttúruverndar eins og atlaga hennar að rammaáætlun sýnir og meðhöndlun og afdrif annarra mála á þessum vettvangi lýsir vangetu til að takast á við vernd náttúru og umhverfis. Nægir í því sambandi að nefna klístrið sem varð til af náttúrupassanum sem hefur nú dagað uppi og engin lausn virðist í sjónmáli hvað það varðar. Við förum enn og aftur inn í sumarið með engar tekjur í uppbyggingu innviða, sem er afskaplega bagalegt. Ráðherrann kemur væntanlega aftur á hnjánum með beiðni í fjáraukalög til að geta sinnt þessu brýna og mikilvæga verkefni.

Hér er gengið í hringi og því miður sjáum við ekki til sólar á öllu þessu ráfi. Þetta er bagalegt og vonandi kemur sú tíð frekar fyrr en síðar að okkur auðnist að stöðva þetta afturhald, þessa raunalegu göngu aftur á bak í átt frá verðugum markmiðum náttúruverndar. Ég vona svo sannarlega að okkur megi takast sem fyrst að snúa verkefnunum rétt við á þessu sviði og sinna þeim undir formerkjum framþróunar og með þeirri virðingu sem þeim ber.

Af því að hér er vitnað af meirihlutafulltrúum í atvinnuveganefnd til tiltekinna umsagna, hvort ekki eigi að hlusta á þær, væri áhugavert að hér væri hlustað á ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála og annarra þeirra sem hafa aðra skoðun en bara þá sem hentar hverju sinni. Ég brýni að sjálfsögðu meiri hlutann til að velta þessu fyrir sér og styð að sjálfsögðu tillögu 2. minni hluta sem snýr að frávísun. Ég tel að þetta mál sé þess eðlis að því verði að minnsta kosti ekki lokið á þessu þingi með þeim hætti sem það er hér fram borið.