144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu. Mér fannst hv. þingmaður spyrja spurninga sem við þurfum að fá svör við, þ.e. hver ástæðan sé fyrir því að svo harkalega er gengið fram eins og nú er gert og hvaða hagsmunir séu svo ríkir að mönnum finnist þess virði að henda 20 ára vinnu við rammaáætlun út um gluggann.

Hv. þingmaður þekkir söguna mjög vel og fór vel yfir hana. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því að vandinn sem við sé að glíma sé sá að hv. þingmenn, sem bera fram þessa tillögu, þekki ekki söguna nægilega vel og byggi kannski þess vegna tillögu sína á veikum grunni. Ef þeir þekktu söguna vel og væru búnir að kynna sér hana vel mundu þeir ekki fara fram með þessum hætti, þ.e. að taka sjálfir virkjunarkosti úr biðflokki og flokka þá í nýtingarflokk í trássi við verkefnisstjórn.