144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:45]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að þetta merka plagg, niðurstaða 2. áfanga rammaáætlunar, eftir 20 ára starf að mér skilst, sem verkefnisstjórn 2. áfanga og fjórir faghópar sem skipaðir voru 2007 unnu, hvort það sé orðið marklaust plagg eftir að rammaáætlun 3 kemur. Þar er farið fram á að átta kostir yrðu skoðaðir, en ekki var hægt að skoða þá alla, ef ég vitna í texta frá rammaáætlun 3, með leyfi forseta:

„Í framhaldinu varð fljótlega ljóst að nokkuð vantaði upp á að hægt yrði að gera öllum virkjunarkostunum átta viðunandi skil á þeim stutta tíma sem til ráðstöfunar var, sérstaklega eftir að ljóst varð að dráttur yrði á skipun faghópa vegna óvissu um greiðslur fyrir þá vinnu sem faghópunum var ætlað að inna af hendi.“ (Gripið fram í.)

Það er alveg ljóst að þeir náðu ekki að — þeir viðurkenna að þeir komust ekki yfir alla kostina. (Gripið fram í.) Og er þá rammaáætlun 2 ekki í gildi? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því. Auk þess segja þeir:

„Aðferðafræðin gefur ekki möguleika á að framkvæma mat á stökum virkjunarkosti eða mjög fáum virkjunarkostum, enda er þá ekki hægt að framkvæma marktækan samanburð á milli kosta.“

Ég spyr hv. þingmann: Er hún sammála eða ósammála mér í því að rammaáætlun 2 sé í gildi, fyrir utan þá kosti sem rammaáætlun 3 tekur á?