144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætlega málefnalega ræðu, svona að mestu leyti. Mér fannst hún þó aðeins fara út af sporinu, eða það eru hlutir sem mig langar til að spyrja hv. þingmann betur um. Það er þegar hún talar um að verið sé að gera atlögu að landinu og hún telji brýnt að verja hagsmuni þjóðarinnar og vernda náttúruna. Hún talar um vangetu núverandi meiri hluta til að takast á við vernd á náttúrunni, algjöra uppgjöf.

Nú snúast athugasemdirnar um laxinn og ég spyr þá hv. þingmann: Er það þannig að þingmenn Vinstri grænna hafa þá afstöðu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir svo vel í bók sinni, Ári drekans, laugardaginn 24. mars 2012, þegar hann segir: Innan VG er hópur sterkra umhverfissinna sem meðal annars tengist Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur og Bergi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra þingflokksins, sem mun frekar yfirgefa VG en að láta Þjórsárvirkjanir yfir sig ganga.

Þarna er hann að lýsa hinni pólitísku meðferð málsins á síðasta kjörtímabili og ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Er það þannig að þingmenn VG geta ekki sætt sig við neinar virkjanir, vegna þess að virkjanirnar í Þjórsá eru þó einhverjir þeir virkjunarkostir sem skora hvað lægst í umhverfismati? (Gripið fram í: … betur hlustað á ræðurnar í þessari umræðu.)