144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Til að svara hvað varðar virkjanir þá að sjálfsögðu, að vel athuguðu máli, þegar við erum komin fram með rökstuðning sem við teljum að hafi farið eftir því ferli sem vera ber, sættum við okkur við það. En það eru alls ekki allir sem eru sáttir við það og það eru ekki allir sem mundu greiða því atkvæði, hvorki innan VG né annarra flokka, tel ég. En það breytir því ekki að við sættum okkur við hið lögformlega ferli.

Varðandi hv. þingmann og kollega minn, Össur Skarphéðinsson, sem hefur sjálfur komið í pontu og reynt að leiðrétta hv. þingmann hvað varðar hrossakaupin, hefur mér fundist hann frekar hafa kvartað yfir því að hrossakaupin hafi ekki verið næg (Gripið fram í.) og yfir því að málinu hafi ekki verið beitt í Evrópusambandsumræðunni, í slagtogi við Evrópusambandsumsóknina, eins og hann vildi gera. Ég held því, virðulegi forseti, að sá hv. þingmaður sem skrifaði bókina hafi svarað því sjálfur hér og reynt að leiðrétta þingmenn stjórnarinnar. (Gripið fram í: Það vantar eitthvað upp á lesskilninginn.)(Gripið fram í: Já, einmitt.)(Gripið fram í: PISA-könnunin.)