144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Í ljósi þess sem hér hefur komið fram, þ.e. að við erum að ræða breytingartillögu við tillögu ráðherra og breytingartillögu við þá breytingartillögu sem við höfum enn ekki séð og ráðherrann sem talaði fyrir breytingartillögunni er ekki í salnum, að forsætisráðherra sem er með nýjar röksemdir um tilurð þessarar tillögu og breytingartillögunnar yfir höfuð er heldur ekki hér í salnum, sé ég ekki betur en að við verðum að gera hlé á þessari umræðu hið minnsta. Auðvitað vil ég helst að málið fari út af dagskrá, en lágmark er að við gerum hlé á þessari umræðu og reynum að stilla af stöðu umræðunnar. Hverjar eru röksemdir meiri hlutans? Við sjáum þær ekki. Við sjáum ekki röksemdir meiri hlutans nema brotakenndar röksemdir hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki á staðnum til að gera grein fyrir því hvaða rök liggja að baki breytingartillögu við breytingartillöguna sem við höfum verið með hér til umfjöllunar. Þetta gengur ekki, virðulegur forseti. Við verðum að hafa gögn málsins eins og þau leggja sig fyrir framan okkur þegar við erum að fjalla um þetta hér. Annað er ekki boðlegt.