144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst við ekki geta haldið þessari síðari umr. um málið áfram nema forsætisráðherra komi hingað og geri okkur grein fyrir því hvert stóra planið er varðandi vinnumarkaðinn og kjaradeilurnar. Ef þetta mál er allt í einu orðið lykillinn að lausn þar verður hann að útskýra það. Hann getur ekki bara komið í fyrirspurnatíma með einhverjar slíkar yfirlýsingar, hann verður þá að koma hingað og ræða við okkur um hvert stóra planið sé og fara yfir það með hvaða hætti þetta mál sé lausn á kjaradeilum á vinnumarkaði. Enginn annar segir þetta. Enn sem komið er er þetta bara í höfðinu á forsætisráðherra. Enginn á vinnumarkaði er að tala um þetta, deilendur eru ekki að kalla eftir því að þetta mál verði klárað hér. Þess vegna þurfum við þessar upplýsingar til að geta haldið áfram með málið. Við getum ekki haldið áfram og klárað. Þetta er síðari umr. málsins. Maður getur ekki klárað hana án þess að hafa þessa hluti á hreinu. Mér finnst algjört lágmark að hann verði kallaður hingað og gefi okkur yfirlýsingu um það með (Forseti hringir.) hvaða hætti þetta mál sé liður í lausn í deilum á vinnumarkaði vegna þess að hann virðist vera algjörlega einn um að halda því fram að svo sé.