144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér þann munað að taka ekki undir kröfur flokkssystra minna um að hæstv. forsætisráðherra komi til fundar. Ég er ekki endilega viss um að þingið sé betri staður með hann innan dyra.

Hins vegar er hæstv. forsætisráðherra sá ráðherranna sem boðaði að breytt yrði þeirri tillögu sem hv. þm. Jón Gunnarsson skaut eins og tundurskeyti inn í þingið. Við þurfum að sjá þá tillögu og ef ekki sjá hana þá heyra að minnsta kosti greinargerðina með tillögunni. Ég vænti þess að hún byggi á þeim rökum sem komu fram í minnisblaði tveggja skrifstofa, í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu annars vegar og hins vegar í atvinnuvegaráðuneytinu. Ef svo er þá hlýtur sami rökstuðningur líka að gilda um Skrokköldu. Þetta þurfum við að hafa fyrir framan okkur til þess að geta rætt þetta. Þess vegna tel ég að það sé sjálfsögð krafa að málinu verði frestað þangað til þetta liggur fyrir. Það er ekki hægt að hafa þetta hangandi í lausu lofti. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)