144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er fjöldinn allur af málum sem bíða 2. umr. sem við gætum verið að tala um. Hér er eitt mjög einfalt, frumvarp um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks. Það virðist ríkja tiltölulega góð samstaða um það, einn aðili á nefndarálitinu skrifar undir með fyrirvara. Þetta er bara eitt af handahófi, það er nóg hérna af málum sem við gætum verið að ræða og nýta tíma þingsins betur en í þetta þras um dagskrá, og þá ítreka ég að þrasið er um dagskrána, ekki bara efnisatriði breytingartillögunnar sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom fram með heldur er ágreiningurinn um fundarstjórn forseta, dagskráin sérstaklega, og það hvernig hún er ákveðin.

Virðulegi forseti. Mig langar að vera svolítið lausnamiðaður og leggja til að dagskráin verði í framtíðinni ákveðin með hliðsjón af kannski aðeins fleiri hausum til þess að hafa skoðanir á henni. Þegar meira en þriðjungur þingsins er ósáttur við dagskrána er eitthvað verulega mikið að fundarstjórn forseta, virðulegi forseti.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.