144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:35]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, nær alltaf að svæla mig úr fylgsni mínu og ég verð því að taka aðeins til máls og þrasa um dagskrána. Það er nefnilega merkilegt að menn nota orðin „þrasa um dagskrána“, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kvartar yfir. En ég spyr: Hver er að biðja ykkur hv. þingmenn um að þrasa um dagskrána (Gripið fram í.) og kvarta aftur og aftur og ítrekað um dagskrána og á sama tíma óska eftir því að formaður atvinnuveganefndar sé viðstaddur umræðuna? Kannski mun hann bara vera viðstaddur umræðuna þegar hún hefst, ekki þarf hann að vera viðstaddur umræðuna um fundarstjórn forseta, það er engin umræða. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Nei. Það er enginn að biðja um það. Ég hef bara sjálfur mjög gaman að þessum umræðum um fundarstjórn forseta og ég kvarta ekkert yfir því. (Forseti hringir.)

Að lokum mælist ég til þess að allir fundir fastanefnda Alþingis verði lokaðir. [Hlátur í þingsal.]