144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson talaði um að þessi umræða væri þinginu til skammar. Mér finnst mjög ósmekklegt að tala svona. Umræðan hér núna er vegna þess að brýnt er að standa vörð um fagleg vinnubrögð og brýnt að standa vörð um náttúru landsins og nýtingu hennar, og það fari í gegnum lögformleg ferli. Komandi kynslóð á örugglega eftir að þakka stjórnarandstöðunni fyrir að standa vörð um þessa hluti. Ég efast um að hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar fái neina sérstaka grafskrift fyrir sína frammistöðu. Ég held að það sé alveg þess virði að halda umræðunni vel á lofti og við séum ekki þjóðinni til skammar heldur sé það þá þveröfugt ef eitthvað er.