144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og hún sem ákaflega góður umhverfisráðherra á sínum tíma kann náttúrlega þessa reglu. Þess vegna langaði mig til þess að nefna það að þegar tillaga hæstv. umhverfisráðherra kom inn í þingið hófst mikill átakaleikur því að hún hefði auðvitað átt að fara til umhverfis- og samgöngunefndar en var tekin og sett yfir í atvinnuveganefnd. Við vitum núna af hverju það var gert.

Þá spyr ég hv. þingmann: Telur hún framferði meiri hluta atvinnuveganefndar í anda varúðarreglunnar og í anda Árósasamningsins? Telur hún atvinnuveganefnd hafa þá þekkingu á umhverfi þeirra laga og þess ramma sem við vinnum innan til þess að geta gert það með fullnægjandi hætti?