144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég vék að í ræðu minni þá held ég að við hefðum verið stödd annars staðar ef biðflokkurinn hefði verið víðari, ég held að við séum sammála um það. Hins vegar má kannski hengja það á löggjöfina; við erum náttúrlega að keyra þetta í fyrsta skipti, ef svo má að orði komast. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur líka talað um það að hún mundi vilja sjá tækið fá að virka einu sinni; og núna, þar sem bráðabirgðaákvæðið er ekki í gangi, heldur bara lögin eins og þau voru sett fram 2011. Það mundi þá vera með þeirri afurð sem kæmi frá ótruflaðri verkefnisstjórn rammaáætlunar.

Ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir málið ef okkur lánaðist að horfa á það í einhverjum fjarska, ef við værum ekki svona föst ofan í sandkorninu sem við erum stundum föst í hér í þinginu. Ef við gætum leyft okkur að fara aðeins út úr þessu spektrúmi og horfa á 50 ára skala eða eitthvað svoleiðis þá mundum við segja sem svo: Það var mjög mikilvægt að rammaáætlun fengi að fara í gegn eina umferð og við sæjum hvernig hún virkaði ótrufluð.