144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er voðalega vont að hafa bara fáar mínútur og gaman að sjá blikið í auga hv. þingmanns þegar hún fann upp á þessari spurningu.

Ég er ekki sammála því að VG horfi bara á þrönga innanlandshagsmuni. Við höfum líka talað mjög mikið um loftslagsmál og það eru ekki margir sem hafa verið til í þá umræðu með okkur. Til dæmis er sú vandræðalega staða að koma upp núna að Ísland hefur ekki skilað loftslagsmarkmiðum sínum fyrir fundinn í París í haust — eftir því sem ég best veit, ég hef að minnsta kosti ekki séð þau markmið.

En einmitt út af þessum sjónarmiðum sem hv. þingmaður er að tala um, þá þurfum við líka að horfa til ábyrgðar okkar að því er varðar vinnslu á kolefniseldsneyti eða olíu. Þar er náttúrlega mesti vandinn og mesta ógnin gagnvart loftslaginu og lofthjúpi jarðar, það er í brennslu kolefnis og losun gróðurhúsalofttegunda. Þarna getum við kannski byrjað að tala saman ef við fáum einhvern tíma í það ræðutíma.