144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:16]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu. Loksins ræðum við málin málefnalega.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún meti stöðuna. Við erum með verkefnisstjórn fyrir rammaáætlun 2 sem var mjög mikil vinna með marga faghópa sem allir skiluðu áliti og unnu mjög vel. Þeir skiluðu áliti og röðuðu eftir virkjunarkostum. Svo kemur rammaáætlun 3. Sú verkefnisstjórn er beðin um að skoða átta kosti, en telur sig ekki geta raðað nema þremur af einhverju viti. Þá langar mig að spyrja hv. fyrrverandi ráðherra, hún þekkir þessi mál mjög vel, hvort rammaáætlun 2 sé þá í gildi enn, þ.e. þeir virkjunarkostir (Forseti hringir.) sem ekki voru teknir fyrir í rammaáætlun 3. Getum við ekki verið sammála um það að öll sú vinna sem liggur á bak (Forseti hringir.) við rammaáætlun 2 sé að minnsta kosti í gildi þó að við deilum um þessa átta kosti?