144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðan er í raun og veru sú að rammaáætlun 2 lauk störfum og skilaði sinni vinnu til ráðherra á sínum tíma, eins og ég fór yfir hér áðan. Síðan tekur verkefnisstjórn rammaáætlunar 3 við samkvæmt lögunum frá 2011. Hún fær fjögur ár hið minnsta til þess að vinna úr öllum biðflokknum sem lá fyrir eftir samþykktina 2013 og þeim kostum sem bætast við. Ráðherra sendir síðan verkefnisstjórninni bréf og óskar eftir því að flýtt verði mati á þessum átta kostum. Verkefnisstjórn verður við því, enda heyrir hún undir ráðherra, og niðurstaðan er sú að einungis einn af þessum átta sé tilbúinn strax, af því að ráðherra lá á að fá niðurstöður. Þess vegna erum við hér með tillögu sem snýst um Hvammsvirkjun, átta kostir urðu bara að þessum eina. Það breytir ekki því að rammaáætlun 3 stendur enn þá yfir og verkefnisstjórn rammaáætlunar 3 mun ljúka störfum með öllum þeim kostum sem þar eru undir og skila væntanlega niðurstöðu sinni áður en þessi fjögur ár eru liðin.