144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var heldur ekki alltaf skemmtilegt að skrifa hana. [Hlátur í þingsal.] Það er oft mjög erfitt að horfast í augu við sjálfan sig og ég er ekki í bókinni að reyna að fegra mig neitt, þvert á móti er ég stundum undrandi á þessum manni sem tók sér ýmislegt fyrir hendur til þess að ná árangri, en aldrei þó út fyrir það sem kalla má sannfæringu mína. En það er önnur saga.

Ég geri engar athugasemdir við það þótt hv. þingmaður, að fengnum öllum upplýsingum um laxastofnana í Þjórsá, haldi áfram að vera þeirrar skoðunar að það eigi ekki að virkja í neðri hluta Þjórsár. Það er ekki á grundvelli laxarakanna sem ég tek afstöðu til Urriðafoss heldur á öðrum rökum, estetískum rökum sem ég lýsi í minni bók. Það finnst mér vera fullkomlega verjanlegt, en síðar mun ég, ef ég kemst einhvern tíma að í þessari umræðu, ég er reyndar ekki einu sinni kominn á mælendaskrá, þá gera grein fyrir afstöðu minni til þessara virkjana og laxarakanna, en það breytir engu um það að ég tel að fara eigi að lögum (Forseti hringir.) og reglum. Og ég ætla ekki að taka þátt í því að samþykkja eitt eða neitt sem ekki uppfyllir það.