144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þingmanns að því er varðar Urriðafoss og þetta er alveg sérdeilis fagur foss sem á að eira bara þess vegna. Það dugar alveg, þau rök duga algjörlega og þau standast allar rammaáætlanir allra tíma, þannig að við erum sammála um það. Og raunar var það þannig í umræðunni 2012 að það voru þó nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þeirrar skoðunar að það þyrfti að staldra verulega við það að setja Urriðafoss í nýtingarflokk og þar á meðal var hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem taldi það alls ekkert hafið yfir vafa að það væri réttmætt að nýta Urriðafoss og það ekki bara út af laxarökunum margnefndu.

Ég mundi gjarnan vilja eiga orðastað við hv. þingmann einhvern tíma og endilega í ræðustóli Alþingis um það hvernig honum hefur lánast að lifa af í pólitík svona lengi og bókin um Ár drekans er sannarlega innlegg í þá pólitísku ráðgátu nútímans. En kannski lánast honum líka að skrifa fleiri bækur. (ÖS: Í slóð drekans.) Í slóð drekans, já, það verður næsta bók.