144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir þessa fyrirspurn. Það eru ekki nokkur einustu sinnaskipti hjá mér. Auðvitað verður ekki byrjað í Urriðafossi og virkjanirnar fyrir ofan skildar eftir, það á sjálfsögðu að byrja efst til þess að nýta vatnsmagnið. Þannig virka vatnsaflsvirkjanir. Það var einmitt ákveðinn vafi um Urriðafossvirkjun á síðasta kjörtímabili. Ég vil ekki fara fram með neinum gassagangi eða neitt slíkt, en þetta þarf bara að skoða og þetta er til umræðu í þinginu.

Hér vísaði hv. þingmaður í að hv. fyrrverandi umhverfisráðherra hefði sett þessa tillögu fram. Ég minni hv. þingmann á að Alþingi Íslendinga fékk málið í hendurnar þegar þáverandi hæstv. umhverfisráðherra talaði fyrir málinu og það er Alþingis og þingmanna að gera breytingar á þingmálum, og það er þannig. Þingmenn hafa það vald að gera þær breytingar sem þeir vilja við hvert (Forseti hringir.) einasta mál sem kemur inn í þingið.