144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja þetta andsvar mitt á því að biðja hv. þm. Pál Val Björnsson afsökunar á því hvað nafnið hans þvældist fyrir mér í upphafi ræðu minnar áðan, ég á það stundum til að rugla saman mannanöfnum eins og fleiri ágætir fyrrverandi þingmenn.

Varðandi það sem þingmaðurinn fór yfir þá var ég að setja síðasta kjörtímabil í tímaröð, virðulegi forseti, með því að lesa byrjun ræðu minnar upp úr bók Össurar Skarphéðinssonar, þannig að ég tel að þingmaðurinn hafi gert þingheimi mikinn greiða með því að hleypa mér fram fyrir sig og þáði ég það góða boð. Af því að hv. þingmaður vísar í hvar ég er fædd og uppalin og vísar í bréf sem barst frá bændum þá eru þetta alltaf álitamálin sem koma upp. Þetta kom líka upp hjá bændum sem bjuggu á bökkum Blöndu á sínum tíma sem misstu mikið svæði undir vatn. Auðvitað kemur þetta fólk andmælum sínum á framfæri. En svona verður ekki gert nema að fullar bætur komi fyrir.