144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta og fæ vonandi svör hjá hæstv. forseta við því hvernig það megi vera að við höldum áfram að ræða þetta mál þegar við erum í síðari umr. um það. Það er búið að boða frekari breytingartillögur eða breytingartillögu við breytingartillöguna, það eru að koma fram nýjar upplýsingar frá hæstv. forsætisráðherra um að þetta mál gegni lykilhlutverki í lausn kjaradeilu á vinnumarkaði, sem hann er einn um að halda fram í samfélaginu öllu, aleinn um að halda því fram, og það er allt í einu orðin ástæðan fyrir því að við erum hér að ræða þetta mál klukkutíma eftir klukkutíma.

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki að hæstv. forseta finnist þetta þinginu sæmandi og ég trúi því ekki að á hans langa, farsæla þingferli hefði hann látið slíkt viðgangast hefði hann á þessu betri tök eða væri ráðherra sjálfur. Ég bara trúi því ekki. Ég bið hæstv. forseta að hlutast til um það (Forseti hringir.) að þetta mál verði tekið af dagskrá og menn látnir vinna þetta almennilega. Við getum ekki haldið svona áfram.