144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig til að spyrja hvort það standi enn sem hæstv. forseti sagði hér í dag að starfsáætlun þingsins muni standa. Það þýðir að sex dagar eru þá eftir vegna þess að, svo ég endurtaki það sem ég sagði fyrr í kvöld, annar í hvítasunnu er á mánudaginn og svo er eldhúsdagur á miðvikudaginn. Það eru því sex dagar eftir og enn erum við að ræða þessa tillögu sem minni hlutinn hefur mótmælt og telur ekki vera þingtæka vegna þeirra breytingartillagna sem liggja fyrir.

Síðan höfum við heyrt það frá tveim hæstv. ráðherrum að hér eigi að koma einhver önnur breytingartillaga fram. En samt sem áður heyrum við það hérna á þingbekkjum að meira að segja þingmenn úr atvinnuveganefnd segja: Nei, nei, það er bara breytingartillaga, hún liggur fyrir. Og hvað eigum við að halda, virðulegi forseti? Hvenær kemur sú breytingartillaga fram ef hún á að koma fram? Ég legg eiginlega til að fundi verði frestað þangað til breytingartillagan liggur fyrir og við vitum hvaða plagg við erum að ræða.