144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Forseti lét svo lítið að segja okkur frá því um þær spurningar sem hér hefðu verið bornar upp, að úr þeim yrði leyst í umræðunni. Ég spyr bara virðulegan forseta um stöðu hans gagnvart þeim veruleika sem við stöndum frammi fyrir, sem er sá að hér hafa verið boðaðar tillögur, í síðustu viku, þær eru undir í umræðunni en hafa ekki birst. Og yfir stendur síðari umræða um þingsályktunartillögu, virðulegi forseti. Hver er eiginlega afstaða forseta til þessarar stöðu og telur hann það boðlegt að tillagan sé til umræðu eftir að hafa verið borin hér fram munnlega? Og ef svo er, ef forseti telur þetta boðlegt í seinni umræðu um þingsályktunartillögu, þá spyr ég: Fyrir hvern starfar hæstv. forseti? Er hann hér til þess að gæta virðingar þingsins í heild eða stendur hann hér fyrir meiri hluta atvinnuveganefndar?