144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi meðferð þessarar tillögu eins og nú er í pottinn búið liggur það fyrir að aðstandendur þessa máls eða málatilbúnaðar, þar á meðal tveir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, hafa boðað að flutt verði breytingartillaga við þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Við erum stödd í síðari umr. um þingmálið, þingsályktunartillögu, og ég held að forseti hljóti að átta sig á að það er mjög réttmæt og lýðræðisleg krafa, studd þingvenju, að úr því að svona er kalli nefndin málið aftur til sín, samanber að slíkt má gera á hvaða stigi umræðu sem er, gangi frá þessari breytingartillögu, skili rökstuðningi fyrir henni og framhaldsnefndaráliti og þá verði haldið áfram með umræðuna ef mönnum sýnist svo.

Það er til fjöldi dæma um að þetta sé verklagið, hið vandaða þinglega verklag, þegar svona stendur á. Þegar þinginu var breytt í eina málstofu voru heitstrengingar um að málefnalegum óskum um að þingmál gengi til nefnda yrði aldrei hafnað (Forseti hringir.) vegna þess að þannig yrði tryggt að afnám deildaskiptingarinnar kæmi ekki niður á vandaðri þinglegri málsmeðferð.